Oddi á Rangárvöllum
Oddi á Rangárvöllum er sögufrægur kirkjustaður, bær og prestsetur. Oddi var á öldum áður eitt mesta höfðingja- og menntasetur á Íslandi og þar ólst upp meðal annarra Snorri Sturluson.
Oddi stendur neðarlega á Rangárvöllum mitt á milli Ytri- og Eystri-Rangár, en neðan við Oddatorfu rennur Þverá. Oddi var í aldir stórbýli og voru þar miklar engjar. Fjölmargar hjáleigur fylgdu Odda og átti kirkjan ítök víða.
Einn af frægari prestum sem setið hafa Odda er sr. Matthías Jochumsson en hann samdi eftirfarandi kvæði um staðinn:
Eg geng á Gammabrekku
er glóa vallartár
og dimma Ægisdrekku
mér duna Rangársjár.
En salur Guðs sig sveigir
svo signir landsins hring,
svo hrifin sál mín segir:
Hér setur Drottinn þing.
Talið er að kirkja hafi staðið í Odda frá upphafi kristni á Íslandi. Núverandi kirkja er timburkirkja frá árinu 1924 og tekur um 100 manns í sæti. Kirkjan er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Kirkjan var endurbætt, máluð og skreytt árið 1953 af Grétu og Jóni Björnssyni og endurvígð það ár.
Meðal merkustu muna í eigu kirkjunnar er silfurkalekur sem talinn er vera frá árinu 1300, altaristafla frá árinu 1895 sem sýnir Krist í grasagarðinum Gestemane og skírnarfontur sem er útskorinn og málaður af Ámunda snikkara Jónssyni.
Á þjóðveldistímabilinu var Oddi ættaróðal Oddaverja, einnar gáfuðustu og mikilhæfustu ættar þess tíma. Nafntogaðastur Oddaverja var Sæmundur fróði Sigfússon. Sæmundur fróði stundaði námi við Svartaskóla í París. Hann mun líklega hafa verið einn fyrstur íslenskra sagnaritara sem setti saman rit um Noregskonunga, en það er nú glatað. Sonarsonur Sæmundar fróða var Jón Loftsson sem var einn af valdamestu höfðingjum á Íslandi og jafnframt einn mikilsvirtasti þeirra allra, friðsamastur og ástsælastur. Jón tók Snorra Sturluson í fóstur og menntaði hann.
Sex prestar í Odda hafa orðið biskupar á Íslandi; sr. Ólafur Rögnvaldsson, sr. Björn Þorleifsson, sr. Ólafur Gíslason, sr. Árni Þórarinsson, sr. Steingrímur Jónsson og sr. Helgi G. Thordarsen.
Oddafélagið var stofnað 1. desember árið 1990 og er eitt af meginmarkmiðum félagsins að vinna að endurreisn fræðaseturs í Odda á Rangárvöllum. Félagar eru nú um 200 talsins og er verndari félagsins frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Félagið heldur árlega Oddastefnu þar sem fjölmörg erindi um Oddastað eru flutt ár hvert.
Núverandi sóknarprestur í Odda er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir.