Einar Sigurðsson: Hafnarhúsið skalf
Einar Sigurðsson var staddur í Hafnarhúsinu í Reykjavík 17. júní árið 2000 þegar suðurlandsskjálftinn reið yfir. Þetta er hans saga.
Góðan dag.
Í Mbl. 8.5. og 16.6. á þessu ári var kallað eftir frásögnum af viðburðum sem tengjast jarðskjálftunum í júní árið 2000.
Býst raunar við að fyrir liggi nægar heimildir um samkomu sem haldin var í Hafnarhúsinu í Reykjavík síðdegis 17. júní 2000, í tilefni af því að víkingaskipið Víkingur var að leggja upp í för sína til Grænlands, Kanada og Bandaríkjanna (víst með viðkomu í Búðardal). Við hjónin vorum í hópi þeirra sem boðnir voru til samkomunnar.
Á dagskránni var m.a. tónlistaratriði, einsöngur. Við píanóið var Steinunn Birna Ragnarsdóttir, man ekki hver söngkonan var. En í miðju lagi fór Hafnarhúsið að skjálfa. Tónlistarkonurnar hættu þegar í stað flutningi sínum. Gestum brá auðvitatað illilega, og þótt hrinan stæði ekki lengi flýttu sér flestir út úr húsinu, þar á meðal við hjónin. Ég var þó strax meðvitaður um að Hafnarhúsið væri mjög sterkbyggt og mundi standa af sér allharðan jarðskjálfta. Eftir nokkra stund úti í góða veðrinu ákváðu aðstandendur viðburðarins að halda áfram með dagskrána. Gestir snéru þá inn í húsið, þar á meðal við hjónin, og tónlistarkonurnar tóku til við flutning sinn þar sem frá var horfið. Margir kusu þó frá að hverfa, mjög lausleg áætlun er að um tveir þriðju gestanna hafa skilað sér inn í húsið aftur.
Þannig var nú þetta eftir því sem okkur rekur best minni til.
Þegar seinni skjálftinn reið yfir, seint um kvöld 21. júní, ef rétt er munað, vorum við heima hjá okkur í Kringlunni 45 í Reykjavík. Við höfðum skömmu áður eignast listaverk sem saman stóð af rúmlega tuttugu gler"diskum" (eða skjöldum á stæð við stóra diska), sem héngu í stigahúsi íbúðarinnar (um var að ræða 2ja hæða raðhús) og voru nokkuð þétt settir. Við skjálftann slógust diskarnir saman, svo að úr varð eins komar hljómkviða. Eitthvað hreyfðist í hillum án þess að tjón yrði.
Við vitjuðum sumarhúss okkar við Álftavatn í Grímsnesi daginn eftir. Þar hafði ýmislegt oltið úr hillum eða um koll, en tjón ekki umtalsvert.
- ágúst þetta ár, 2000, gengum við ásamt nokkrum vinum okkar á Hestfjall. Þar hafði orðið mikið jarðrask. Á fjallinu hafði staðið landmælingavarða, hlaðin úr hraungrýti. Hún hafði sundrast gersamlega. Við blasti steinhlunkur með koparskildi áfestum, merktum Landmælingum Íslands. Neðan við hina formlegu áletrun gat að lesa þessa áminningu: Röskun varðar refsingu (!!).
Með góðri kveðju
Einar Sigurðsson, fv. landsbókavörður