Helgi Valberg: Umkringdur 20 þúsund skeifum sem hrundu í gólfið

Helgi Valberg var búsettur á Hellu og var staddur í skeifnasmiðjunni Helluskeifum þegar skjálftinn reið yfir. Þetta er hans saga.

Þegar skjáftinn 17. júní reið yfir var ég staddur í iðnaðarhúsi okkar hjóna, þar framleiddum við skeifur undir hesta og hét það Helluskeifur staðsett á Eyjasandi á Hellu. Ég var þar við störf því sumarvertíðin var í fullum gangi og mikið magn af skeifum í húsinu, um það bil 5000 gangar eða 20.000 skeifur. Því háttar til við svona framleiðslu að eftir áramót fer sumarframleiðslan í gang svo nóg sé til um vorið og vetraframleiðslan hefst um haustið. Þess má geta hér að á sumrin stafaði ég sem suðumaður fyrir Hitaveitu Rangæinga og kem ég að því síðar.

Ég upplifði skjáftann þannig að fyrst kom högg, sem var fyrir mér eins og vörubíll hefði keyrt á húsið á þó nokkri ferð, þá í beinu framhaldi mikill titringur og ég varð að halda mér í til að standa á fótunum, engin möguleiki að hlaupa út. Stærsti hlutinn af þessum skeifum var flokkaður í 20 st. stafla eftir stærðum, þykktum og fram eða afturfóta gerðum, 6 stærðir 3 þykktir og fram eða aftur af öllu og svo pottaðar eða ekki, sem er 72 útfærslur og voru á hillum og fletum tilbúnar til pökkunar. Megnið af þessum skeifum hrynja á gólfið og varð síðar mikið verk að flokka þær aftur uppí hillur. Í þessum látum standa framleiðsluvélarnar uppi en hristast heilmikið, eftir smátíma, geri mér ekki gein fyrir tímalengd, finnst mér skjálftinn breytast og verða meira eins og bylgjur og þá fara vélarnar að færast til og sumar að falla, það eina sem maður hugsaði um var að verða ekki undir neinu. þegar skjáftinn stoppaði dreif ég mig út. Iðnaðarhúsið skemmdist ekki og skemmdir á vélum voru óverulegar, en það þurfti lyftara og æfingar að reisa þær við og koma á sinn stað. Nú veit ég ekki hvort einhverjir hafi skrifað um hitaveitumálin, en ég fór strax eftir skjáftann ásamt fleirum að berjast við leka á asbeströrum veitunnar en það var orðið heitavatnslaust á allri lögninni vegna leka. Austan við Hellu voru lekarnir viðráðanlegir og við þéttum þá með til þess gerðum rústfríum hólkum með gúmíþéttingu að innan og voru þær skrúfaðar yfir rörin á lekasvæðum og náðu þessir lekar ekki lengra en niður í Varmadalinn. Þegar asbeströrin voru lögð voru þau yfirleitt lögð ofanjarðar og síðan mokað yfir og lekarnir sáust vel á ruðningnum. En það var ekki svona auðvelt vestan við Hellu, þar voru skemmdir stærri og fleiri, og má sega að þegar einum leka var lokað opnuðust tveir aðrir og þetta leit ekki vel út. Þá var ákveðið að fara aðra leið og virkja nýja stálröralögn sem við hjá hitaveitunni vorum búnir að leggja frá Laugalandi niður að Hellu. En það þurfti að tengja hana á nokkrum stöðum, við hitaveitutankinn á Laugalandi, meðfram brúnni við Rauðalæk og Hellubrúnni og við dæluna austan Hellubrúar. Það var töluverð vinna, rífa asbest lagnir frá til að koma stállögnum áfram og minnir mig að þetta hafi verið tveggja sólarhringja törn. Það var mikil lukka fyrir veituna að stjórn hennar hafi ákveðið að fara í að leggja þessa lögn og hafa hana tilbúna þegar skjálftinn kom.

Í lokin vil ég nefna það að er áhugavert og skemmtilegt framtak hjá ykkur að skrá skjálftasögur.

Bestu kveðjur Helgi Valberg