Hildur Stefánsdóttir: Bakkinn gekk í bylgjum og nestið flaut niður lækinn

Hildur Stefánsdóttir var stödd í Hraunteig við Heklurætur 17. júní 2000 þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir. Þetta er hennar saga.

Ég heiti Hildur Stefánsdóttir og ég var sem krakki í sveit í Hólum á Rangárvöllum upp undir Heklu. Ég kem alltaf á hverju einasta ári þarna í sveitina og þennan dag, sautjánda júní árið 2000 var ég stödd með börnin mín og mömmu og fleiri sem tilheyrðu minni fjölskyldu í sumarbústað sem afasystir mín hafði byggt í Næfurholtslandi við lækinn sem við köllum Hraunteigslæk. Skógurinn Hraunteigur er alveg við sumarbústaðinn. Þegar við komum förum við alltaf í göngutúr út í Hraunteig. Þar er svo fallegt og við göngum út að fossunum í Ytri-Rangá. Þennan dag vorum við held ég ein tíu sem vorum þarna og við förum út í Hraunteig til þess að fara í göngutúr og út að fossunum og svo þangað sem kallast Sporðar. Þar var sauðahúsið í gamla daga og það er gaman að skoða þessi ummerki frá gömlum dögum. Svo göngum við niður að læknum og erum vön að taka leiðina upp með, við köllum hann Hraunteigslæk þarna, upp að sumarbústaðnum. Gróðurinn var orðinn meiri en hann var vanur að vera. Það er búið að friða Hraunteigsskóg svo það var svolítið erfitt að komast um. Svo erum við sonur minn, Stefán, með mömmu á milli okkar og höldum í höndina á henni. Við erum að fikra okkur upp árbakkann og erum þarna frekar neðarlega, nálægt Ytri-Rangá. Svo allt í einu koma þessar drunur og við náttúrulega lítum öll til Heklu, þekkjum nú vinkonuna Heklu, og bjuggumst við að það væri að koma eldgos. Og svo er mér litið niður á fæturna, ég sá að það var ekkert eldgos, en mér verður litið niður á fæturna á mömmu og mér og þetta skekur okkur þarna á árbakkanum. Svo lít ég upp eftir læknum og sé hreinlega bakkann rifna frá. Maður sá bara moldina koma og lækurinn hætti að vera tær eins og venjulega, varð bara gruggugur. Svo sá ég að það var eins og það væri verið að dusta langan renning, árbakkinn bara gekk í bylgjum. Það var rosaleg upplifun að sjá þetta. Við stóðum þarna og héldum í mömmu og pössuðum að missa hana ekki út í lækinn. Svo förum við að átta okkur á hvað sé í gangi og koma okkur frá bakkanum og tala við hitt fólkið sem við vorum með. Þá hrópar ein upp rétt seinna „O, þarna kemur laxinn sem við ætluðum að borða í kvöld!“ Svo kom mjólkin og súpan, jógúrtin og smjörið og allt nestið okkar. Það kom bara rennandi niður lækinn. Og þar með slepptum við Stefán mömmu og Gréta og fleiri tóku við henni, og við bara dembdum okkur út í læk til þess að byrja að tína nestið upp úr læknum sem að við höfðum sett í kælibox við sumarbústaðinn, við lækjarbakkann þar og sett farg ofan á svo að það myndi nú ekki fljóta. Og svo síðast kom sjálft kæliboxið fljótandi. Og við náðum að tína þetta allt upp úr læknum. Svo náttúrulega áttaði maður sig á hvað hefði verið að gerast og svona og þegar við komum svo heim í bústaðinn að þá var greinilegt að þar hafði fallið úr hillu í eldhúsinu ýmislegt niður á gólfið.

Svo þegar við náðum tali af Guðnýju dóttur minni og hennar kærasta Viktori fóru þau að tala um að þau hefð legið í tjaldinu að hvíla sig þegar Guðný sagði „Viktor, finnurðu jarðskjálftann?“ „Jarðskjálftann? Guðný, ég er að hvíla mig. Hættu að hreyfa þig svona mikið.“ „Hreyfa mig? Það er jarðskjálfti.“ „Nei, þú ert bara alltaf á fullu að hreyfa þig. Ég ætla að hvíla mig.“ Svona upplifði hann þetta.

Svo var það þriðja sagan að. Soffía systir mín, hún fór að tala um jarðskjálftann og segja mér sína upplifun. Hún hafði farið í sturtu en maðurinn hennar, Georg, hann fór út að ganga af því það var svo fallegt og gott veður. Svo er Soffía rétt komin úr sturtunni, þá skelfur allt náttúrulega og hristist og hún var bara að hugsa um að fara hlaupandi út með handklæðið, berrössuð. Þegar hún opnaði dyrnar hugsaði hún þó „nei ég get ekki gert þetta, ég bara, þetta er ekki hægt, ég verð að standa hérna“. Og hún gerði það. Svo kemur Georg, maðurinn hennar, heim. Og hún sagði: „Georg, fannstu jarðskjálftann?“ „Jarðskjálftann? Nei, ég fann engan jarðskjálfta. Það kom bara einhver helvítis hundur og réðst á mig og bara hoppaði upp á mig og sleppti mér ekki og ég bara barðist þarna við þennan hund þangað til loksins að ég gat hrist hann af mér.“ „Fannstu engan jarðskjálfta?“ „Nei, bara brjálaður hundur.“ Svo að þetta segir manni hvernig hundurinn brást við. Þetta eru svona þessi viðbrögð sem ég þekkti til þennan dag.