Katrín 15 ára - samkenndin dýrmæt
Katrín var 15 ára og bjó á Hellu árið 2000 þegar skjálftarnir riðu yfir. Þetta er hennar saga.
Þegar fyrsti skjálftinn reið yfir sat ég í íþróttahúsinu að selja inn í kvenfélagskaffið. Ég man fyrst eftir drununum sem komu á undan og hversu lengi þær virtust endast. Svo kom höggið og allt fór af stað. Ég reyndi að standa upp en stóllinn kom með, skólaborðið fyrir framan mig var á fleygiferð og engin leið að hlaupa út. Það kom smá pása í mestu lætin sem gaf tækifæri til að reyna að byrja að hlaupa en svo fór allt á fleygiferð aftur. Þegar allt stoppaði loksins og allir gátu hlaupið út kom raunverulega sjokkið. Var þetta loksins sá stóri? Ég fann mömmu og við fórum heim þar sem systir mín var ein heima. Pabbi rauk af stað til að sinna sínum skyldum og sáum við lítið af honum næstu daga.
Í gegnum restina af deginum hjálpaði ég aðeins til við að hreinsa upp heima og upp í Hótel Mosfelli ásamt því að vera meira á ferðinni en að vera heima. Jörðin var alltaf titrandi að því er virtist og betra að heyra ekki í glamrandi glösum og myndum að detta. Um kvöldið reyndum við mamma að sofa í tjaldi úti í garði en jörðin virtist skjálfa nánast endalaust svo við gáfumst upp og fórum aftur inn. Það var ekki mikið sofið þá nótt. Næstu dagar einkenndust af eftirskjálftum og kvíða yfir næsta skjálfta.
Þegar næsti stóri kom nokkrum dögum seinna var ég komin á þann stað að nenna ekki að hlaupa fyrir enn einn eftirskjálftann þar til mamma rak mig út. Í mörg ár á eftir átti ég mjög erfitt þegar ég heyrði drunur sem minntu á þær sem komu á undan skjálftanum. Ég þoldi hristing betur en að heyra þessar drunur.
Það sem situr í mér eftir þetta allt er samkenndin á meðal allra á Hellu í gegnum þennan tíma. Einnig þakklæti að við höfðum ekki fréttamenn og myndavélar í andlitinu á okkur á fyrstu klukkutímunum á meðan fólk var að finna fjölskyldumeðlimi og athuga húsin sín. Við fengum tíma til að finna út úr því allra helsta áður en nokkur mætti á svæðið.