Skúli Jón Sigurðarson: „Þetta er Suðurlandsskjálftinn“!!

Skúli Jón Sigurðarson

Skúli Jón Sigurðarson, kt: 200238-4359, Sóltúni 9, 105 R., segir svo frá ------------------ Suðurlandsskjálftinn 17. Júní 2000. Það var laugardagur og blíðskaparveður á þjóðhátíðardaginn, 17. júní árið 2000 .Við hjónin, Sjöfn Friðriksdóttir kona mín og ég ákváðum að skreppa á Þingvöll og heimsækja vini okkar, Þráinn Karlsson verkfræðing og konu hans Birnu Magnúsdóttur, sem voru þar í sumarbústað sínum, sem er í landi Kárastaða og nánast niður á bakka Þingvallavatns. Sitt hvoru megin við bústaðinn eru djúpar sprungur, í stefnu NA-SV, þær tengjast Þingvallavatni og eðlilega er stutt niður í vatnið í þessum sprungum. Sú sem er vestan við húsið er nokkuð breið og yfir hana er brú, en sú sprunga sem er austan við bústaðinn er fremur mjó og því er hann á fremur mjórri klettabrík eða tungu milli þessara sprungna. Við ókum í góða veðrinu frá Reykjavík austur í Þingvallasveit og niður að vatninu að bústað þeirra hjóna. Þau tóku okkur fagnandi og eftir að hafa setið og spjallað góða stund úti, fengum við okkur sæti við kaffiborð í stofunni þar sem kaffi og kökur biðu okkar. Í stofunni þarna er hátt undir loft og mænirinn er nokkuð hátt fyrir miðju. Í mæninum beint yfir kaffiborðinu sem við sátum við, hékk rafmagnslampi í all langri snúru. Klukkan var nánast 20 mínútur fyrir 16:00 og við vorum að spjalla saman yfir kræsingunum. Skyndilega kom mjög harður jarðskjálftakippur, húsið kipptist til og ruggaði svo út á hliðarnar og lampinn sveiflaðist fram og aftur. Þetta var verulega óþægilegt og ég sagði: „Þetta er Suðurlandsskjálftinn“!! Okkur brá eðlilega mikið og við rukum öll á fætur og út undir bert loft. Þá skall annar jarðskjálftakippur á, nokkuð minni en hinn fyrri en samt afar óþægilegur. Við heyrðum að undir tók í nálægum fjöllum, það var sem bergmál frá þeim dágóða stund og við sáum gruggað vatn renna úr sprungunum sitt hvoru megin við húsið og út í Þingvallavatn. Þó okkur yrði mjög bilt við, kom þetta okkur í raun og veru ekkert mjög á óvart, því satt að segja bjóst fólk við því að Suðurlandsskjálftinn gerði vart við sig, langt var frá þeim síðasta, en samt var okkur brugðið og hjartslátturinn var ör! Það hlutu að hafa orðið víðtækar skemmdir á Suðurlandi. Við kveiktum á útvarpinu og heyrðum sagt frá jarðskjálftanum, sem átti sér upptök í Holtasveit í Rangárvallasýslu, skammt suður af Árnesi. Fyrri kippurinn var um 6,5 stig á Richter og sá síðari um 5,3 stig. Nokkru seinna sáum við hvar lítil flugvél kom fljúgandi yfir Mosfellsheiðina og hún flaug lágt og fylgdi þjóðveginum. Í útvarpinu var sagt, að skemmdir hefðu m.a. orðið á vegum. Ég þekkti flugvélina og sá, að þar fór fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson. Sem betur fer var vegurinn í lagi og við ókum heim skömmu síðar.

Suðurlandsskjálftinn 21. Júní 2000 o.fl. Eftir heimsóknina til vina okkar í Kárastaðanesið og lífsreynsluna sem við upplifðum þar, var haldið heim. Mér er oft hugsað til sagna sem móðir mín Kristín Skúladóttir frá Keldum sagði mér, m.a. um það þegar hún upplifði harðan jarðskjálftakipp Suðurlandsskjálftans árið 1912, þá var hún einungis 7 ára gamalt barn í foreldrahúsum á Keldum á Rangárvöllum. Sjálfur hafði ég nokkrum sinnum fundið jarðskjálftakippi, þegar ég átti heima á Keldum þegar Heklugosið varð vorið 1947. Þegar það hófst snemma morguns í lok marsmánaðar þá um vorið, vaknaði ég rétt um klukkan 7 að morgni við það að rúmið mitt kipptist frá veggnum út á gólf. Í sama mund kom mamma inn þar sem við bræðurnir og Svanborg amma okkar sváfum, en hún hafði þá nokkru áður farið á fætur til þess að mjólka kýrnar. Það var asi á mömmu og hún sagði: „Ég held að Hekla sé að byrja að gjósa“!! „Guð hjálpi okkur“!! sagði amma gamla og settist upp í rúminu sínu. Okkur bræðrunum var bylt við þegar amma sagði þetta, við biðum ekki boðanna og rukum upp á nærfötunum einum og út úr húsinu undir bert loft. Veður var þá stillt og gott, himininn nánast heiður og blár og skyggnið gott. Í norðaustri blasti Hekla við og gríðar mikill reykmökkur steig hratt upp frá toppi fjallsins, hann lagði til suðurs undan hægum norðan vindi og drunur og ógnvekjandi dynkir kváðu við. En þarna var öldin önnur, þessa júnídaga sumarið 2000 var ég fjölskyldumaður og í sumarfríi. Synir okkar Sjafnar voru orðnir 37 og 27 ára gamlir og fluttir að heiman, svo við vorum bara tvö heima og höfðum áformað að fara eitthvað í stutta útilegu með hjólhýsið okkar næstu daga. Ég hugsaði með mér, að ekki væri ólíklegt að eftirskjálftar fylgdu þessum harða jarðskjálftakipp, sem við upplifðum á Þingvöllum á þjóðhátíðardaginn og ráðlegt væri að fara ekki í Holtin eða Landsveitina, heldur nokkuð langt austur til dæmis austur undir Eyjafjöll, þar hlytu kippirnir að vera vægari ef þeir kæmu á þessum tíma. Ég stakk því upp á því að við færum austur að Skógum undir Eyjafjöllum og fengjum að vera þar með hjólhýsið í nokkra daga . Það varð úr, að þriðjudaginn 20. júní ókum við með hjólhýsið okkar austur að Skógum. Þórður Tómasson safnvörður og vinur okkar tók að vana vel á móti okkur og leyfði okkur að setja hjólhýsið upp austan við skólann, á túninu við brekkurætur ofan við Byggðasafnshúsin. Þarna á Skógum var veður stillt og gott og friður og kyrrð var yfir öllu svæðinu og þar sem við vorum var ekkert fólk eftir að kvölda tók. Við áttum rólegt og gott kvöld þarna í kvöldblíðunni og blankalogni á miðvikudeginum og gengum seint til náða. Við vorum nýsofnuð nokkru eftir miðnættið, þegar all snarpur jarðskjálftakippur skall á svæðinu. Hjólhýsið okkar kipptist til og við hrukkum upp með andfælum. Þetta var mjög óþægilegt og við urðum bæði hissa og sannarlega ekki alveg laus við ótta –hvað var nú að gerast!! Ég rauk á fætur og út í kvöldkyrrðina. Ég man að ég heyrði grjót velta í fjallshlíðinni og bergmál heyrðist frá fjöllunum, ekki ólíkt því sem við upplifðum á Þingvöllum, eftir stóra kippinn þar nokkrum dögum fyrr. Í fréttum daginn eftir var sagt frá skjálftanum, sem var rúmlega 6 stig á Richterskala og einnig frá skemmdum sem urðu á mannvirkjum á Suðurlandi. Við sáum ummerki um skjálftann og skemmdir sem hann olli á veginum og á byggingum, á leið okkar heim, ekki síst vestan Þjórsárbrúarinnar.