Sólrún Helga: Þjóðhátíðarrækjusalatið

Sólrún Helga Guðmundsdóttir stóð á sundlaugarbakkanum á Hellu þegar skjálftinn reið yfir 17. júní 2000. Þetta er hennar saga.

Þegar skjálftinn reið yfir þá var ég, mamma og Agnar bróðir, þá 3 ára, á sundlaugarbakkanum að bíða eftir næstu keppni sem var í gangi sem skemmtiatriði. Það varð auðvitað uppi fótur og fit og miklar drunur sem dundu yfir okkur. Ég man að við blotnuðum í fæturnar þvi öldugangurinn í sundlauginni var svo mikill. Allir þustu út og enginn vissi hvað var í gangi. Ég man að ég hugsaði: „hann hlýtur að fara að enda“ en hann hélt ótrúlega lengi áfram.

Við fundum restina af fjölskyldunni og ég hljóp af stað heim, því þá áttum við heim á Dynskálum 5 og því rétt hjá íþróttahúsinu. Kalli bróðir var reyndar heima því hann hafði verið „veikur“ eftir átök gærkvöldsins.

Allt var á hvolfi inni í húsinu og varla hægt að fara inn fyrir dóti og drasli á gólfinu. Mamma bað bræður mína að fara inní bílskúr og ná í tjalddótið okkar. Áður en við vissum af var bókstaflega allt útilegudót komið í framgarðinn í eina risastóra hrúgu, hústjaldið okkar, dýnur, 5-6 teppi, nokkrir svefnpokar, gamalt tjaldborgartjald, stólar, borð ofl. Örlítil geðshræring í gangi en alveg skiljanleg.

Þegar hafði aðeins róast um þá fórum við að fikra okkur inní eldhús til að finna eitthvað í svanginn. Í hamaganginum hafði sópast út úr efri skápunum og ofan í skúffunar fyrir neðan. Sama var með ísskápinn, allt brotið og bramlað. Fyrir neðan ísskápinn var hins vegar skúffa með kökuformum og hafði því mikið af því sem var í ísskápnum dottið þarf ofan í. Það var einskær gleði og hamingja sem skein úr andliti Sigga eða Kalla (man ekki hvor) þegar þeir fundu heila glerskál sem hafði hvolfst ofan á eitt lausbotnaformið. Þessi skál var full af Rækjusalati! Þessu eina sanna mömmu-rækjusalati sem er alltaf útbúið fyrir 17. Júní.

Þetta er sterkasta minningin mín ásamt því auðvitað hvað það var einstaklega mikil veðurblíða allan daginn og um kvöldið þá var svo stillt veður og mikil kyrrð að það heyrðist ekki einu sinni í fuglunum.

Líklega þurftu allir að jafna sig eftir daginn.

Mamma og co sváfu í tjaldi úti í garði nokkra daga á eftir og á þriðjudeginum á eftir var ákveðið að sofa aftur inní húsi. En þá eins og allir vita reið seinni skjálftinn yfir og við tók hálfur mánuður í hústjaldinu eftir það.